Sveimhugi

- í versta falli skárra -

Wednesday, March 02, 2005

Á meðan laufin sofa...

Mig dreymdi mjög skrýtinn draum í nótt. Ég var í tíma í skólanum sem var eiginlega blanda af vinnunni minni. Yfirmaður minn var kennarinn og hann var að tala eitthvað. Nema hvað. Gunni bankar á dyrnar og vill fá að tala við mig, ég stekk fram til hans og bið hann að bíða aðeins eftir mér. Umræðan fór að snúast um að það væri stundum nóg að hafa hlutina í orði en ekki endilega skriflega, svo tekur kennarinn minn eitthvað dæmi sem ég var viss um að ég hefði heyrt hann segja oft áður og ákvað að hlusta ekki meira á hann í bili. Ég sit svo við hliðina á Birni Steinbeck, sem í gamla gamla daga spilaði körfu út á Vogaskólavelli með mér og Gunna. Við förum eitthvað að tala saman og hann er að spyrja mig einhverra spurninga sem ég svara af bragði. Það eina sem ég man úr samræðunum var að hann hélt að ég væri miklu yngri en ég er. Svo stóð hann upp og labbaði út. Þá fer tíminn allt í einu að snúast um eitthvað próf sem ég mundi ekki eftir að hafa tekið en hugsaði að fyrst yfirmaður minn hefði lagt það fyrir þá hefði ég örugglega staðið mig vel. Svo kemur Björn til baka með prófið mitt og allur bekkurinn fer að skoða það með mér og þá kemur í ljós ég að því að ég hafði gert fullt af klaufavillum, ekki lesið spurningarnar og þess háttar. Þá allt í einu birtist Gunni fyrir utan gluggann bankandi í hann, alveg brjálaður að þurfa að bíða svona lengi.

Tuesday, March 01, 2005

Eyðimerkursveiflan

Næst þegar þú ert úti í eyðimörk og bölvar því að hafa ekki viðeigandi tónlist meðferðis skaltu hugsa til þess þegar þú ákvaðst að sleppa því að hlusta á þetta.

Sunday, February 27, 2005

constipado

Portúgalar fá hægðatregðu alltaf þegar þeir verða veikir. Allavega vísa þeir til slappleikans með orðinu ,,constipado".

Ég ætlaði að fara í sauna í dag en þurfti að beila vegna slens. Ég er sumsé að verða veikur. Já eða að fá hægðatregðu, allt eftir því hvernig á það er litið.

Kannski er ég orðinn veikur. Ætli það ekki bara. Finn til í hálsi og langar helst að horfa á nokkrar seríur af Simpsons. Sumir leggjast í Friends þegar þeir leggjast í flens(u). Maður getur þó alltént rímað.

Ég er alltaf að rekast á einhverjar undarlegar mússíksíður. Verð að deila þessu með ykkur: http://www.munk.org/aom/

Kannski ég fari og glápi á kassann um sinn.

Merkilegt hvað maður getur verið andlaus þegar maður er slappur. Svona ef maður undanskilur rímið hér að ofan.