Sveimhugi

- í versta falli skárra -

Saturday, March 11, 2006

Gunilla Wolde

Það er gaman að rifja upp æskuna í gegnum dóttur sína sem er farin að fíla Emmu- og Tumabækurnar. Fyrir þá sem ekki muna (eða muna og eru til í nostalgíu - varúð: ostlægt undirspil) er hér linkur.

Sunday, March 05, 2006

Góða nótt og gangi ykkur vel...

...er nafnið á svarthvítri ræmu sem ég sá með systur minni nú fyrir skemmstu. Klúníinn, sem góðkunningjar lögreglunar kannast vafalaust við við úr Bráðavaktinni sem sýnd hefur verið á Kommanum um árabil við mikinn fögnuð viðstaddra, er skrifaður sem leikstjóri áðurnefndrar ræmu og verð ég, sérlega áhugasamur maðurinn um hollívúddstjörnur og afrek þeirra, að bekenna ágæti hennar.

Talaði við tæknideild BTnets í gær og bað um aðstoð við að hleypa fólki út í bæ inn í tiltekna músíkmöppu í tölvunni minni. Ég bað um að fá leiðbeiningar sendar á meili sem ég var svo svikinn um. Ég ætla að halda mér vakandi fram á mánudag og hringja alveg koffínsturlaður í þá og spyrja hvern andsk.... Ég og tölvur eigum í svona elska að hata / hata að elska sambandi. Læt áhugasömum eftir að túlka það og teyja að vild.

Fríið mitt er annars brátt á enda, mánudagur nálgast óðfluga, skyldi það vera góð fluga? Svo maður vitni í skáldið með sama eftirnafn og f.v. forseti Lýðveldisins.

Er annars með aðkenningu að flensu. Ég er sannfærður um að það sé fuglaflensa. Ég er allavega hættur að borða fugla í bili. Það fundust 2 dauðir svanir út við þjóðveg í Rangárvallarsýslu um daginn. Það voru ungar stúlkur sem fundu dauðfyflin. Bóndinn á bænum, sem að sögn húsfreyjunnar ,,er ýmsu vanur" setti víst upp gúmmíhanska og henti fuglunum í ruslagám. Hræin verða ekki rannsökuð að sögn yfirdýralæknis. Íslenska afdalamennskan er rómantísk, finnst ykkur ekki?