Sveimhugi

- í versta falli skárra -

Friday, July 30, 2004

Römm er sú taug...

...er tengir mig blogginu mínu. Nú mörgum dögum síðar hef ég ákveðið að skrifa meira á þetta.

Var að ræða við konuna mína um sortuæxli og sólvarnarkrem. Það er víst ekki hollt að nota sólvarnarkrem því í því eru sömu efni og í gluggaþvottaspreyi sem eyða lífrænum efnum sem er ástæðan fyrir því að gluggar glansa. Ekki ósvipað Yes Ultra+ sem leysir upp fitu. Svo bakar sólin þetta inn í húðina, steingeldir hana, blokkar sólina og kemur þannig í veg fyrir að maður fái sitt D vítamín.

(En ósonlagið er orðið svo þunnt. Þú verður að nota sólavörn. Útfjólubláu geislarnir maður, útfjólubláu geislarnir).

Fólk sem er á lyfjum brennur líka frekar í sól. Til dæmis má nefna eina sem skaðbrann eftir hálftíma í sólinni úti í Skálatúnsgarðinum fyrir einhverjum árum á meðan þeir sem ekki voru á lyfjum sluppu óskaddaðir. Kannski var ósonlagið í þynnra lagi akkúrat þar sem hún sat? Eða þá að Piz Buin vörurnar voru ekki nægilega vel markaðssettar til að innkaupastjórar heilbrigðisstofnanna renndu til þeirra hýru auga. Nú, aftur á móti, eru engin börn börn með börnum nema á rítalíni séu, vel smurð. Sortuæxlið er í sókn.

Ég fór nú aldrei mikið í ljós eins og sumir vinir mínir á táningsaldri. Ekki er ég heldur með húðflúr eða geng með úr eða aðra skartgripi. Ó nei. Ég er eins og ég kom úr kúnni takk fyrir. Reyndar nota ég tannkrem, stundum rakkrem, svitakrem, gleraugu, hef gengið í gegnum sprautumeðferð við ofnæmi og hef farið í tannréttingar (hætti samt áður en þær settu fjölskylduna á hausinn). Og viti menn, ljósin standa höllum fæti.

Maður getur varla annað en vorkennt nágrana mínum sem er nýbúinn að kaupa Sólbaðstofuna.
Þau kaup minna dálítið á ef einhver myndi í dag kaupa upp gamlan lager af asbest .

Það er erfitt að vera náttúrulegur í allri þessari ónáttúru. Nútíminn er ónáttúruvænn í meira lagi. Nú var frændi minn að uppgötva að dýr eru látin éta skít áður en þeim er slátrað til manneldis. Nema hvað. Hann ætlar að hætta að borða kjöt.

Merkilegt hvað er hægt að velta sér upp úr þessu. Ég á stundum fullt í fangi með að halda mér í jafnvægi yfir öllu þessu bulli sem er í gangi. Vandamálið er að maður hefur aðgang að of miklum upplýsingum. Ignorance is bliss. Lengi lifi hin eina rétta skoðun, ríkisskoðunin. Við viljum Vilko.

Einhvertíma fattaði ég að ég myndi aldrei bjarga heiminum, þá leið mér strax betur. Ég komst líka að því að ég gæti heldur ekki einu sinni bjargað sjálfum mér frá heiminum sem ekki væri viðbjargandi. Ákvað í beinu framhaldi að einbeita mér að því að draga björg í bú og hætti að taka mark á fréttum.

Samt sem áður dregst hausinn á mér alltaf inn í hringrásina öðru hverju og lætur dægurmálin hlaupa með sig í gönur. Kárahnúkavirkjun, Fjölmiðlafrumvarpið, Týndir túristar, Sri Ramawati, heilbrigðiskerfið, KB Banki, Davíð Oddsson, Írak, Jeb Bush (næsti forseti BNA), Alkaída, Múríel Sharon...

Þá er kominn tími til að kúpla sig út og gera eitthvað annað.