Sveimhugi

- í versta falli skárra -

Sunday, August 29, 2004

The funky president

Var að koma heim af tónleikum með manninum sem fannst of heitt í heita pottinum samkvæmt túlkun Eddie Murphy á guðföður sálartónlistarinnar, James Brown.
Ég varð fyrst undrandi þegar ég frétti af því að hann væri væntanlegur, hugsaði mér mér að þetta gæti ekki verið satt því maðurinn er jú sjötugur. Hvað ætlar þetta gamalmenni að þrauka lengi í bransanum hugsaði ég og það var ekki laust við að ég stæði sjálfan mig strax að því að langa til að bera undrið augum.


Nema hvað, ég velti þessu fyrir mér um stund. Frétti af því að það væri Pétur Kristjánsson sem væri að flytja hann inn og hugsaði um leið hvort hann væri nýlega búinn að láta klippa sig. Það var til siðs í gamla daga að grínast svolítið með klippingu Péturs og gefa jafnvel í skyn um leið að hann hefði betur gerst klippari en músíkant. Þá hefði maður allavega getað farið í klippingu til Péturs, líkt og í döbbuðu auglýsingunni þar sem einhver maður tók það ekki í mál að einhver annar en einhver Pétur myndi klippa hann.

Nema hvað. Ég ákvað að fara ekki. Ástæðan var sú að ég óttaðist að tónleikarnir yrðu eins og tónleikadiskurinn sem ég á með James Brown, einum of Living in America.


Það verður nefninlega að fylgja sögunni um James að rjóminn af hans tónlistarframlagi varð til, að mínu viti, áður en James Brown fór að presentera sig sóló, það er í samfloti við menn sem kölluðu sig The JB's.
Ég vildi ekki eyðileggja þá guðlegu ímynd sem ég hafði af manninum með því að standa í Laugardalshöll, ásamt öðru fólki sem þar stendur í trú um að þau séu á alvöru fönktónleikum, og horfa á sjötugan gamlan mann í svipuðum fötum og Michael Jackson klæðir apann sinn í, reyna að halda reisn og þéna nokkur þorskígildi í leiðinni. Nei, það yrði bara vandræðalegt fyrir okkur báða, James og mig.

Viti menn. Nokkrum dögum síðar hringdi systir mín og kom fyrir bróður sinn vitinu. ,,Hugsaðu þér ef tónleikarnir yrðu svo geðveikt góðir og þú myndir missa af þeim". Þetta var akkúrat það sem ég þurfti að heyra. Litla systir að plögga feitum fyrirframsammara. Ég endurskoðaði afstöðu mína og keypti tvo miða, bauð spúsu minni með.

Svo fórum við. Aðspurður um tónleikana sagði ég: ,,Gott show". Hvorki meira né minna. Frábærir dansarar. Nokkrum mínútum síðar, þegar ég hafði náð að koma skipulagi á hug minn eftir að hafa séð Forrest Whitaker drífa sig upp í pikköppinn hans Balta,
áttaði ég mig á því að tónleikarnir voru í sjálfu sér talsvert í líkingu við það sem ég hafði búist við í upphafi. Ég játa það fúslega að hafa aldrei farið á show á hóteli í Las Vegas,
en ég get ímyndað mér að þessi sýning myndi ganga mjög vel sem slík. Ég er samt sem áður afar ánægður yfir því að hafa farið. Ég meina, það er ekki á hverjum degi sem maður sér James Brown. Svo hjálpaði það líka til að ég var búinn að undirbúa andlega fyrir hið versta. Og þegar svo er í pottinn búið er leiðin aðeins upp á við.