Sveimhugi

- í versta falli skárra -

Sunday, January 02, 2005

Áramótaávarp Sveimhuga

Þegar áramótin skullu á rigndi yfir mig talsvert af áramótakveðjum í sms formi. Mér gafst ekki tækifæri til að svara þeim öllum en hef ákveðið að þakka öllum fyrir árið á þessum vettvangi og óska mönnum að sama skapi góðs gengis á nýju ári.

Árið 2004 var árið sem ég fékk pakkann. Ég skuldsetti mig, mætti í vinnu, flutti í eigið húsnæði, bað konu að giftast mér og dóttir okkar varð eins árs. Mér leið yfirleitt vel og hafði ekki yfir miklu að kvarta persónulega. Öðru máli gegnir um heimsmálin sem virkilega er ástæða til að kvarta yfir. Engu að síður ætla ég að láta það ógert nú, minnugur um eigið máttleysi og takmarkað gildi þess að rífa sig andlega niður vegna hluta sem maður fær ekki breytt.

Jólin eru næstum liðin líka, þau klárast þegar systir mín heldur upp á 23 ára afmælið sitt þann 6. janúar. Hið ótrúlega gerðist, annað árið í röð, mér tókst að halda glaður jól. Fyrir þá sem ekki vita er jólagleði mín fólgin í því að þurfa ekki að heyra Jólahjól fyrir hátíðirnar. Eins og áður sagði þá tókst það og þakka ég almættinu fyrir. Meira óþolandi lag er vandfundið. Reyndar tóku einhver auglýsingaséni upp á því að nota lúðrabyrjunina í einhverja útvarpsauglýsingu sem olli því að ég var talsvert á nálum á aðventu. Hlustaði varlega á útvarp og leið eiginlega eins og ég væri að horfa á endalausan fótboltaleik þar sem Ísland, með 3 í vörninni, væri einu marki yfir en hitt liðið lægi stöðugt í sókn.

Framundan er mikið starf. Með hækkandi sól fjölgar útlendingum í North Face / Goritex fötum á Íslandi og því fylgir heilmikið umstang. Reyndar er jú talsvert eftir af þessum vetri, Þorrinn til dæmis, en á mínum bæ er ekki ráð nema í tíma sé tekið...