Sveimhugi

- í versta falli skárra -

Monday, July 18, 2005

Fyndið?

Uppvaskið beið


Mánudagskvöld og vinnuvikan hafin. Hef engu gleymt og fór hamförum í vinnunni í dag. Afgreiddi mál og menn af festu og skynsemi, líkt og mér er einum lagið.

Hef reyndar aldrei verið þekktur fyrir góðan tónlistarsmekk eða lagvísi ef út í það er farið. Sit tildæmis núna og hlusta á íslensku safnplötuna Peanuts frá sjötíuogeitthvað. Þar koma fram meðal annarra Pal Brothers og, Bjarki Tryggvason, Eik, Paradís og Megas.

Ég fæ nett kikk út úr því að hlusta á tónlist sem sumir hvorki skilja né fíla. Þessa setningu mátti skilja á alla vega tvo vegu. Gestaþraut?

Gerðist barnapía í gærkveldi og fór með 10 ára frænda minn á ,,stórtónleika" með Snoop Doggy Dogg. Ég verð að viðurkenna að það fór um mig nett nostalgía þegar klassíkerarnir voru fluttir við mikinn fögnuð viðstaddra.

Viðstaddir voru þó flestir sennilega að horfa spenntir á Afa á stöð 2 þegar Snoop var að stíga fram á sjónarsviðið á sínum tíma. Ég var í stuttu máli sagt umkringdur 14 ára stelpum sem voru klæddar eins og mellur og lítt eldri piltum með keðjur um hálsinn.

Ég hitti mann á mínum aldri þarna sem ég kannast við og spurði hann hvernig honum litist á unga fólkið í dag. Hann sagði: ,,Þetta er viðbjóður". Það sem skelfir mig er að hann hefur rétt fyrir sér.´

Unglingar hafa löngum verið litnir hornauga, líkt og aðrir hlutir sem falla á milli flokka. Hvorki börn né fullorðin, hvorki mysa né súrmjólk (hugsanlega ábrystir), Yoko né Linda, Tofu né Soya... Þið fattið hvað ég meina.

Ég man hvernig var að vera unglingur. Það var oft ömurlegt. En sama hversu ömurlegt það varð þá varð það aldrei viðbjóður. Enda var hiphoppið ekki jafn iðnvætt þá og það varð síðar. Popptívi var heldur ekki til.