Sveimhugi

- í versta falli skárra -

Thursday, February 10, 2005

Ef sumir drengir eru dátar og allir dátar eru dauðir...

...hvað eru þá margir ráðamenn í ástandi?

Nóg um það eða hvað?

Ég er að hugsa um hvort Íslendingar hafi áhuga á heiðarlegu framboði til Alþingiskosninga.

Framboði sem setti skýr markmið um hlutverk ríkisins. Það er að halda uppi mennta- og heilbrigðiskerfi sem ekki mismunar fólki með gjöldum og biðlistum. Færum vegum, löggæslu, almannavörnum og -tryggingum.

Framboði sem hefði dug í sér til að setja lög um opið bókhald stjórnmálaafla. Af hverju er það leyndarmál hver er að styrkja hvern? Hvernig stendur eiginlega á þessu? Hvað er verið að fela? Skammast stjórnmálaflokkar sín fyrir stuðningsmenn sína? Eða er það á hinn veginn? Skammast einstaklingar og fyrirtæki sín fyrir framlag sitt til ákveðinna flokka?

Má kannski enginn vita að fyrirtæki x styður flokk y? Myndi fólk hætta að kaupa bensín af Olíufélaginu ef það vissi að Olíufélagið styrkti flokkinn sem það kýs ekki? Sumir myndu kannski segja þetta slæmt dæmi en að vel ígrunduðu máli tel ég þetta einmitt vera kjarna þess. Hættum við að kaupa pulsur og tóbak af kaupmanninum sem rændi okkur í formi verðsamráðs? Hvað er langt síðan þú borgaðir fyrir eitthvað annað en nauðsynjavörunua bensín á bensínstöð?

Framboði sem myndi ekki fórna náttúrunni fyrir skammtímaávinning. Ef ávinning skyldi kalla.

Framboði sem hefði hugrekki til að standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar í þeim skilningi að játa ekki upp á sig árásarstríð gegn öðrum þjóðum þvert á öll alþjóðalög, bara af því að það hentar ákveðnum hópi auðmanna af mismunandi uppruna og innræti.

Framboði sem hefði þor til að kyssa Kanann bless úr Keflavík. Hann vill hvort eð er ekki vera þar.

Framboði sem myndi ekki tilkynna bandarískum sendiherra um stefnu okkar í utanríkismálum áður en hún væri tekin fyrir á þingi þjóðarinnar.

Framboði sem stæði fyrir raunverulegt lýðræði en ekki embættismenn í sparifötum á tvöföldum launum í boði þjóðarinnar sem halda uppi misgáfulegu málþófi.