Sveimhugi

- í versta falli skárra -

Sunday, July 03, 2005

Ég vil mín tvö sent...!

Ég er tiltölulega nývaknaður úr 14 tíma roti. Og er sveimérþá ekki frá því að ég sé skrefi lífrænni fyrir vikið, ef marka má sætan anganinn.

Ég var gerður út af örkinni rétt fyrir síðustu helgi og sendur norður í Reykjadal, sem samkvæmt flökkukonu einni er sultarsveit:

Reykjadalur er sultarsveit,
sést hann oft með fönnum.
Víst er ofaukið í þeim reit,
öllum góðum mönnum.

Ég ætla mér ekki að fara mörgum orðum um þetta ferðalag mitt, en til að gera langa sögu stutta var þetta vinnuferð og mikið unnið af þeim sökum.

Það sem ég vildi aftur á móti skrifa um var þetta:

Ég var sumsé staddur á Akureyri í bíl kollega míns sem hafði stokkið í eina búð. Bíllinn var á bílastæði fyrir framan Íslandsbanka, sirka. Ég var alveg að pissa í mig. Ákvað að skella mér á Subway til að létta á mér og skellti öllum hurðum í lás. Nema hvað. Kemur þá ekki kolleginn til baka. Varð mér þá að orði: ,,Þú ert með lyklana er það ekki?" Því miður gat kollegi minn ekki svarað þeirri spurningu játandi en tjáði mér að þeir væru í svissinum á bílnum.

Nú ber að taka fram að bíll þessi er af tegundinni Suzuki Swift. Af því leiðir að lykillinn var í svissinum á Swiftinum, sem minnir mig dálítið á Frank Zappa í svampfrakka.

Við vorum semsagt komin í klípu (kolleginn er kvenkyns), og mig minnir að ég hafi blótað eigin forheimsku einhver reiðinnar býsn. Hringdi á Lögregluna og óskaði eftir aðstoð. Löggan vísaði mér á eitthvað fyrirtæki sem sæi um svona mál og gaf mér upp gemsanúmer sem ég hringdi í.

Sá sem ég talaði við tjáði mér að þetta kostaði tvöþúsundkall og að hann myndi koma eftir smástund sem og hann gerði. Í millitíðinni fór ég á klósettið í Íslandsbanka og í hraðbanka áðurnefndrar fjármálastofnunar og tók út tvöþúsundkall. Fór svo aftur út á planið og drakk svolítið af kaffinu sem kolleginn hafði sótt okkur. Að undanskildum manninum á bílaplaninu fyrir framan Íslandsbanka, sirka, sem ekki kunni að slökkva á hasardljósunum á bílaleigubílnum sínum er fátt annað í frásögur færandi á meðan biðinni stóð.

Sá sem ég talaði við renndi brátt inn á bílaplanið. Hann keyrði gráan jeppa. Maðurinn steig út úr jeppanum og þá sá ég að hann var í ,,vinnufatnaði". Af útliti vinnufatnaðsins að dæma virtist maðurinn höndla eitthvað með efni sem illa næst úr taui. Eftir að hafa kíkt á Swiftinn opnaði hann skott jeppans og tók út tréfleig og einhverskonar verkfæri sem var gert úr járni sem hann notaði til að spenna upp læstu hurðina. Svo skellti hann tréfleignum undir hurðina sem hélst þá nógu mikið opnin til að hann gat smeygt inn vír sem hann notaði til að aflæsa bílnum með.

Ég þakkaði manninum fyrir greðann og reiddi fram tvöþúsundkallinn. Þegar maðurinn gerði sig líklegan til að halda för sinni áfram spurði ég hann hvort ég gæti ekki fengið reikning. Þá sagði hann: ,,Nei, þetta hefur alltaf verið svart og sykurlaust". Svo steig hann upp í jeppann og undirbjó brottför. Það var þá sem ég sagði: ,,Jæja, ókei".

Ég ákvað að hringja aftur í Lögregluna og láta hana vita af því að fyrirtækið sem hún mældi með neitaði að gefa reikning. Það gerði ég og skömmu síðar hringdi maðurinn sem opnaði Swiftinn í mig. Hann virtist nokkuð æstur og spurði mig hvort ég hefði klagað sig. Sagði svo að ef ég vildi endilega fá nótu væri það ekkert mál. Hann hefði bara ekki verið með veskið á sér. Þegar ég ætlaði að benda honum á að það væri ekki það sem hann hefði sagt áðan, datt ég úr gsm sambandi. Var á leiðinni í gegnum Víkurskarðið. Þegar gsm sambandi var náð á ný hringdi maðurinn aftur en ég ýtti á c.